Um vefinn

[ Markmið | Sagan | Tæknin | Vefumsjón ]

Markmið

Partalistinn vill stuðla að umhverfisvernd og sparnaði með því að auðvelda fólki að kaupa, selja og gefa notaða hluti.

Einnig er markmið að auka frægð og frama höfundarins og þjálfa hann í öllu sem við kemur forritun og rekstri dýnamískra vefkerfa. Ef Partalistinn yrði stærsti og vinsælasti smáauglýsingavefur landsins, þá væri það heldur ekkert leiðinlegt...

Sagan

Partalistinn hefur undanfarin ár verið einn helsti vettvangur Íslendinga sem vilja kaupa eða selja notaðan tölvubúnað eða GSM síma

Listinn var stofnaður 1996 (eða 1997?) af undirrituðum sem starfaði þá sem kerfisstjóri Margmiðlunar Internets og átti haug af tölvudrasli sem hann kunni ekki við að henda en hafði sjálfur engin not fyrir. Listinn var því stofnaður í von um að finna einhvern sem vildi losa stofnandann við ónotað en fullkomnlega nothæfa tölvuparta. Fleiri voru í svipuðum sporum og listinn óx hratt og örugglega.

Framan af var Partalistinn rekinn sem póstlisti, þar sem auglýsingar voru sendar á þar til gert netfang þar sem kerfi sá um að dreifa afritum til áskrifenda. Síðar bættist við bréfasafn á vefnum þar sem aðrir en áskrifendur gátu lesið yfir nýlegar auglýsingar.

Í febrúar 2001 var umferð á listanum orðin það mikil að taka þurfti upp ritstjórn. Ritstjórn kom í veg fyrir að pósthólf áskrifenda fylltust af bréfum sem komu hlutverki listans ekkert við. Þrátt fyrir þetta varð fljótt ljóst að listinn var í raun búinn að sprengja utan af sér póstlistafyrirkomulagið, en þar sem enginn tími gafst til að koma upp betra kerfi sáu ritstjórar um að halda ruslpósti í skefjum og tryggja gæði auglýsingaflóðsins sem barst áskrifendum á degi hverjum. Það er ritstjórunum að þakka að Partalistinn hefur lifað af og reynst jafn vel og raun ber vitni. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir sitt starf, en þeir voru allir sjálfboðaliðar.

Sumarið 2005, eftir ítrekaðar tafir, komst þessi smáauglýsingavefur loks í gagnið. Fól þetta í sér minni áherslu á tölvupóst og færði listanum loks notendavænt viðmót og skilvirkt flokkunarkerfi sem gerði kleift að afnema takmarkanir á efni auglýsinga svo hægt væri að auglýsa nánast hvað sem er.

Sumarið 2006 bættist við vefinn almenn leitarvél sem leitar að auglýsingum í nokkrum mismunandi íslenskum smáauglýsingasíðum, auk Partalistans.

Tæknin

  • Vefur Partalistans er að mestu leyti forritaður í Perl.
  • Hann keyrir sem sjálfstæður vefþjónn með hjálp HTTP::Daemon, sem tryggir afköst og aðskilnað frá öðrum kerfum á vélinni sem hýsir listann.
  • Gögn eru geymd í skráarkerfinu!
  • Imagemagick sér um myndvinnslu.
  • Allir mikilvægustu hlutar vefsins virka þó slökkt sé á Javascript.
  • Partalistinn keyrir á AMD XP1800+ vél með 512MB af minni og gommu af diskum. Þess má geta að vélin var keypt fyrir fé sem áskrifendur Partalistans og aðrir notendur vélarinnar lögðu í púkk.
  • Stýrikerfi vélarinnar er ævafornt: RedHat Linux 7.3 (eða þar um bil).
  • Vefurinn lítur líklega best út í Firefox... eða Lynx.
  • Borgar Þorsteinsson fær kærar þakkir fyrir útlitshönnun og aðra veitta aðstoð.
  • Tölfræði vefsins er myndskreytt með hjálp Google Charts.

Vefumsjón

Höfundur, eigandi, ábyrgðar- og umsjónarmaður Partalistans er Bjarni Rúnar Einarsson. Hægt er að ná sambandi við hann beint hér, eða leggja inn almenna fyrirspurn til umsjónarmanna Partalistans.

Endilega láttu hann samt í friði nema það sé annaðhvort eitthvað skemmtilegt (hrós er alltaf velkomið) eða eitthvað mjög áríðandi. Hafðu í huga að þessi vefur er rekinn í sjálfboðastarfi af sjálfboðaliðum...

Forvitnir geta séð tölfræði vefsins hér.

Aftur á forsíðu ...


# (C) Copyright 2005-2008, Bjarni Rúnar Einarsson (hafa samband)